Viðskipti innlent

IEA spáir hærra olíuverði

International Energy Agency (IEA), alþjóðleg ráðgjafarstofnun í orkumálum, spáir hærra olíuverði á næsta ári. Þetta kemur í kjölfar þess að OPEC hefur tilkynnt að samtökin ráðgeri að draga frekar úr framleiðslu á næstunni.

Greiningardeild Landsbankans segir að aðildarríki OPEC muni koma saman aftur 14. desember næstkomandi til að ákveða frekari aðgerðir en OPEC-ríkin, sem framleiða 40 prósent af olíu heimsins, segjast munu standa við gefin orð um samdrátt í framleiðslu, samkvæmt fréttaveitu Bloomberg.

Greiningardeildin segir stefnu OPEC vera að halda verðinu í 60 bandaríkjadölum á tunnu, sem hafi verið harðlega gagnrýnt og IEA segi að núverandi verðlag á olíu skaði hagvöxt í heiminum. Þurfi verð að lækka umtalsvert frá því sem nú er. Þrátt fyrir ákvörðun OPEC um að draga úr framleiðslu er alls óvíst um árangur og er því töluverð óvissa um þróun olíuverðs á næstu mánuðum.

Deildin segir ennfremur að undanfarna mánuði hafi hagstæð gengisþróun krónu og stöðug lækkun olíu á heimsmarkaðsverði vegið þungt í lækkun verðbólgu hér á landi. Gangi spár IEA og áform OPEC eftir muni þróun olíuverðs hins vegar snúast við og olían fara að hækka á ný, að mati deildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×