Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, segir í viðtali við tímaritið New Scientist, að hann yrði áhyggjufullur ef sköpunarsagan yrði kennd sem raunvísindi, í breskum skólum. Sköpunarsagan er sú kenning Biblíunnar að Guð hafi skapað heiminn á sex dögum.
Þessi kenning hefur lengi verið umdeild, í Bandaríkjunum, þar sem íhaldssamir kristnir menn hafna þróunarkenningu Darwins. Deilur brutust út í Bretlandi, fyrr á þessu ári, eftir að einka-stofnun sem fjármagnar marga skóla í norðurhluta landsins var sökuð um að kenna sköpunarsöguna í eðlisfræðitímum.
Stofnunin sagði að þróunarkenningin væri kennd í skólunum, en leyft væri að minnast á sköpunarsöguna í umræðum. Blair sagði að hann hefði heimsótt einn af þessum skólum, og hefði ekki annað séð en að þeir kenndu venjulega námsskrá. Hann vildi hinsvegar ekki sjá sköpunarsöguna kennda sem vísindi.