Palestínskir byssumenn hafa látið spænska ljósmyndarann Emilio Morenatti lausann úr gíslingu. Morenatti, sem vinnur fyrir Associated Press, var rænt á Gaza-svæðinu í dag og haldið í gíslingu í tæpar 13 klukkustundir. Það var þrýstingur frá ráðamönnum Palestínumanna sem tryggi lausn hins 37 ára gamla Morenattis.
Fjórir byssumenn gripu Morenatti þar sem hann var á leið út úr íbúð sinni á Gaza og bifreið á vegum AP í morgun. Hann var fluttur yfir í annan bíl og honum ekið á brott í skyndi. Enginn krafa var gerð um lausnargjald og ekki var í fyrstu vitað hverjir rændu honum.
Það voru fulltrúar úr heimastjórn Hamas og Fatah-hreyfingar Mahmouds Abbas, forseta Palestínumanna, sem þrýstu á um lausn Morenattis.
Vitni segja að hann hafi verið fluttur á skrifstofu Abbasar í Gaza í kvöld en þangað hafi hann komið í fylgd háttsettra fulltrúa öryggissveita Palestínumanna.
Tawfiq Abu Khoussa, talsmaður Fatah-hreyfingarinnar, segir mannræningjanna hafa framselt Morenatti til öryggissveitarmanna.
Talsmaður á skrifstofu Ismails Haniyehs, forsætisráðherra í heimastjórn Hamas, hefur eftir forsætisráðherranum að vitað sé hverjir hafi rænt Morenatti og að þeir verði sóttir til saka. Haniyeh mun hafa þakkað innaríkisráðherra í stjórn hans og öryggissveitarmönnum fyrir það hafa lagt hönd á plóg til að tryggja lausn Morenattis.
Morenatti, sem er frá Jerez á Spáni, hefur unnið fyrir AP í Jerúsalme síðan í fyrra.
Fawzi Barhoum, talsmaður Hamas, sagði fyrr í dag að ránið á honum myndi ekki gagnast málstað Palestínumanna. Aðgerðir mannræningjanna gangi gegn menningu og trú Palestínumanna.
Miguel Angel Moratinos, utanríkisráðherra Spánar, hafði samband við Abbas, forseta, og aðra fulltrúa Palestínumanna í dag vegna málsins.
Flestir þeir útlendingar sem hafa lent í klóm palestínskra mannræningja hafa fengið frelsi á ný nokkrum klukkustundum síðar, í lengsta lagi nokkrum dögum eftir að þeim var rænt.
Fyrr í mánuðinum rændu byssumenn bandarískum námsmanni sem var að vinna sem sjálfboðaliði á Vesturbakkanum. Hann var látinn laus skömmu síðar. Fréttamanni og myndatökumanni Fox fréttastöðvarinnar var rænt á Gaza-svæðinu í ágúst. Þeir voru í haldi í 2 vikur áður en þeir voru látnir lausir.