Viðskipti innlent

Óbreyttir vextir hjá Íbúðalánasjóði

Íbúðalánasjóður.
Íbúðalánasjóður.

Íbúðalánasjóður efndi til útboðs á íbúðabréfum í gær og bárust tilboð að nafnvirði 16,1 milljarða krónur. Greiningardeild Glitnis segir í Morgunkorni sínu að ákveðið hafi verið að taka tilboðum fyrir 7 milljarða krónur. Vextir Íbúðalánasjóðs eru óbreyttur eftir útboðið.

Í kjölfar útboðsins var greint frá því að að útlánsvextir Íbúðalánasjóðs yrðu óbreyttir. Lán án uppgreiðsluálags bera 4,95 prósent vexti en lán með sérstöku uppgreiðsluálagi bera 4,70 prósent vexti.

Greiningardeildin segir ávöxtunarkröfu íbúðabréfa á markaði hafa hækkað verulega undanfarinn hálfan mánuð, ekki síst á styttri flokkunum og er hækkunin á bilinu 18-112 punktar. Komi því ekki á óvart að tekin tilboð einskorðuðust við lengri flokka íbúðabréfa í þessu útboði því annað hefði kallað á hækkun útlánsvaxta sjóðsins, að sögn greiningardeildar Glitnis.

Það sem af er degi hefur ávöxtunarkrafa íbúðabréfa farið lækkandi á markaði og telur greiningardeildin því að hún muni lækka enn frekar frá því sem nú er innan fjórðungsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×