Körfubolti

Ísland lagði Lúxemburg

Jón Arnór Stefánsson meiddist á ökkla og þurfti að fara af leikvelli gegn Lúxemburg í kvöld
Jón Arnór Stefánsson meiddist á ökkla og þurfti að fara af leikvelli gegn Lúxemburg í kvöld Mynd/Anton Brink

Íslenska A-landsliðið í körfubolta vann í kvöld sannfærandi 98-76 sigur á Lúxemburg í B-deild Evrópukeppninnar en leikið var í Keflavík. Íslenska liðið byrjaði af miklum krafti í kvöld og lét gott forskot sitt aldrei af hendi.

Íslenska liðið hafði 25-12 forystu eftir fyrsta leikhluta, leiddi 50-31 í hálfleik og 73-60 eftir þrjá leikhluta. Forysta íslenska liðsins var mest 24 stig í leiknum.

Jón Arnór Stefánsson meiddist á ökkla eftir aðeins þriggja mínútna leik og þurfti að fara af leikvelli. Hann reyndi síðar í leiknum að koma aftur inn í leikinn, en þurfti frá að hverfa. Jón fer í myndatöku á morgun og þar fær væntanlega úr því skorist hvort hann kemst með íslenska liðinu í útileikinn gegn Austurríkismönnum á laugardaginn.

Brenton Birmingham átti enn einn stórleikinn fyrir íslenska landsliðið í kvöld og skoraði 24 stig, Logi Gunnarsson skoraði 23 stig, Jakob Sigurðarson skoraði 11 stig og gaf 8 stoðsendingar, Fannar Ólafsson skoraði 10 stig, Páll Axel Vilbergsson skoraði 8 stig, líkt og Magnús Gunnarsson.

Alvin Jones, öflugasti leikmaður Lúxemburg, var rekinn í bað í þriðja leikhluta eftir að hafa skorað 14 stig og hirt 13 fráköst og munaði um minna hjá gestunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×