Dómstóll í Danmörku hefur úrskurðað fimm menn í gæsluvarðhald í fjórar vikur en þeir voru handteknir í Vollsmose fyrr í vikunni, grunaðir um að skipuleggja hryðjuverk.
Níu voru handteknir en tveir þeirra látnir lausir skömmu eftir handtökuna. Tveir voru þegar úrskurðaðir í mánaðar gæsluvarðhald en það var svo ekki fyrr en í dag sem hinir fimm bættust í þann hóp. Ekki er þó víst að allir sjö verði ákærðir í málinu.
Lögregla lagði fram ný gögn við málsmeðferðina í dag en hún hefur nú skoðað tölvur mannanna og bíla og kannað færslur á reikningum þeirra. Gæsluvarðhaldsúrskurðurinn frá í dag verður kærður.