Innlent

Árni fram í Suðurkjördæmi

Árni Mathiesen fjármálaráðherra sækist eftir fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Árni yfirgefur þannig Suðvesturkjördæmið, sitt gamla kjördæmi, en hann segist ekki vera að rýma fyrir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, varaformanni Sjálfstæðisflokksins.

Árni tilkynnti um ákvörðun sína í Reykjanesbæ í dag. Hann er fyrsti þingmaður Suðvesturkjördæmis, en þar er flokkssystir hans og samherji í ríkisstjórninni Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir 6. þingmaður. Árni segist ekki vera að rýma fyrir henni. Árni segir samgöngumál, atvinnumál og þjónustu hins opinbera helstu málin, til þessa heyri sú staða sem upp er komin vegna brottfarar varnarliðsins.

Árni segir engin sérstök skilaboð felast í ákvörðun sinni til þingmanna Sjálfstæðisflokksins Suðurkjördæmis, en þess má geta að efsti þingmaður Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, Drífa Hjartardóttir sagðist í samtali við NFS í dag fagna því að fá ráðherra í kjördæmið og hún liti ekki svo á að Árni væri að troða sér fram fyrir hana. Hún hefur ákveðið að gefa kost á sér í 2. sæti listans fyrir næstu kosningar. Árni taldi ekki rétt að hafa uppi skoðanir um hugsanlegt framboð nafni síns Johnsen sem ýmsir spá að gefi kost á sér á ný eftir að æra hans var uppreist af dómsmálaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×