Körfubolti

Við bara frusum eins og hvolpar

Hlynur Bæringsson var að vonum ekki sáttur við að tapa fyrir Finnum í kvöld
Hlynur Bæringsson var að vonum ekki sáttur við að tapa fyrir Finnum í kvöld

Keppnismaðurinn Hlynur Bæringsson var afar ósáttur við tap íslenska landsliðsin í körfubolta gegn Finnum í B-deild Evrópukeppninnar í kvöld. Hann segir að þó vissulega sé finnska liðið sterkt, hafi íslenska liðið verið allt of lint í síðari hálfleiknum og því hafi Finnarnir gengið á lagið.

"Við spiluðum vel í fyrri hálfleik, en í þeim síðari fóru Finnarnir að taka harðar á okkur og við bara frusum eins og einhverjir hvolpar," sagði Hlynur móður og másandi um leið og flautað var af í kvöld.

"Þetta finnska lið er auðvitað mjög sterkt, en þetta eru engar hetjur. Við strákarnir í liðinu höfum unnið betra lið heldur en þetta, svo við höfum engar afsakanir," sagði Hlynur, en viðurkenndi að Hanno Mottola hefði reynst íslenska liðinu mjög erfiður - en sá skoraði 25 stig og hirti 15 fráköst.

"Mottola er einn besti leikmaður sem ég hef spilað á móti. Hann er ekki sérlega fljótur, en hann er með rosalega flottar hreyfingar og góð skot og það eru svona týpur af leikmönnum sem mér finnast flottastir," sagði Hlynur, en ekki er langt síðan hann barðist við kínverska tröllið Yao Ming í landsleik.

Næsta verkefni á dagskrá íslenska landsliðsins er leikur við Georgíumenn á útivelli, en Hlynur er hvergi smeykur við það. "Við vitum auðvitað að það verður ekkert létt verkefni. Þetta er austantjaldslið með brjálaðan heimavöll, en við mætum bara ákveðnir til leiks þar eins og annarsstaðar. Þetta er jafn riðill og við ætlum okkur áfram. Það var vissulega áfall að tapa þessum leik við Finna, en við erum ekkert hættir í þessari keppni," sagði baráttujaxlinn Hlynur Bæringsson, sem skoraði 13 stig og hirti 15 fráköst í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×