Innlent

Lög brotin svo hægt sé að standa við barnasáttmálann

Skólayfirvöld í Reykjavík brjóta íslensk lög til að uppfylla barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Lögin eru brotin svo hægt sé að veita börnum fólks sem komið hefur til landsins í atvinnuleit skólavist. Átta börn á grunnskólaaldri frá Austur-Evrópu fá hins vegar ekki inni í grunnskólanum á Ísafirði vegna þess að þau eru án kennitölu og dvalarleyfis.

Frá fyrsta maí síðastliðnum má fólk frá nýju ríkjum Evrópusambandsins koma hingað og leita sér að vinnu í allt að sex mánuði, án þess að hafa hér sérstakt leyfi. Á meðan er fólkið hvorki með lögheimili hér, né íslenska kennitölu, nema það hafi sérstaka evrópska tryggingu. Á Ísafirði, þar sem töluvert er af fólki frá Austur-Evrópuríkjum, eru nú í upphafi skólaárs, átta börn utan kerfis og fá ekki skólavist, jafnvel þó að sótt hafi verið um hana.

Barnasáttmáli Sameinuðu Þjóðanna kveður á um skýlausan rétt barna til að ganga í grunnskóla þar sem þau eiga lögheimili og lögspekingar sem fréttastofan hefur rætt við telja ljóst að rétturinn nái líka til barna sem ekki hafi lögheimili í því landi sem þau dveljast í.

Börnin átta á Ísafirði hafa enn hvorki fengið kennitölu né dvalarleyfi og á meðan fá þau ekki skólavist samkvæmt íslenskum lögum, sem flest bendir til að séu brot á barnasáttmálanum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa skólayfirvöld í Reykjavík þó ákveðið að brjóta íslensk lög og tekið við börnum sem ekki hafa kennitölu, að því gefnu að þau hafi læknisvottorð, sem er algjört skilyrði. Yfirleitt kemur kennitalan fljótlega og því aðeins farið framhjá lögunum í nokkrar vikur.

Flest barna sem svona er ástatt fyrir hafa farið í Austurbæjarskóla og sem stendur standa engin grunnskólabörn af erlendum uppruna utan kerfisins í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×