Innlent

HB Grandi áfram kvótamesta útgerð landsins

HB Grandi hf.
HB Grandi hf. Mynd/Valli
HB Grandi hf. heldur sæti sínu sem kvótamesta útgerð landsins með tæplega 37.000 þorskígildis tonna kvóta. Nýtt kvótaár hófst á miðnætti í nótt en alls er 930 skipum og bátum úthlutað kvóta í ár.

Alls fá 414 skip úthlutað fiskveiðikvóta á nýju fiskveiðiári. Rúmlega 500 bátar fá úthlutað kvóta í krókaaflamarki en aðeins bátar sem eru undir 15 brúttólestum að stærð fá úthlutun í þeim flokk.

HB Grandi hf. er stærsta útgerð landsins með tæp tíu prósent af heildarkvóta þeirra tegunda sem úthlutað er til á fiskveiðiárinu. Til samanburðar má geta þetta að minnsta útgerð landsins Útnes ehf. í Snæfellsbæ fær í ár úthlutað tæpum 900 tonnum í þorskígildum.

Nokkrar breytingar hafa verið gerðar varðandi sérstakar úthlutanir. Sóknardagakerfi hefur verið lagt af en aðeins var einn bátur eftir á sóknardögum á fiskveiðiárinu 2005/2006 líkt og fram kemur á heimasíðu Fiskistofu. Þá eru sérstakar úthlutanir til krókaaflamarksbáta og úthlutanir frá Byggðastofnun liðin tíð og sömuleiðis úthlutun úr svonefndum 3.000 tonna potti.

Magn kvóta efttir fisktegundum hefur breyst lítillega á milli ára. Síldarkvótinn hefur verið aukinn um 20.000 tonn og er nú 130.000. Þá hefur keilukvótinn verið aukinn úr 3500 í 5000 tonn. Þorskvótinn minnkar um 5000 þúsund tonn og er nú 193.000 tonn. Sandkolinn minnkar úr 4000 í 2000 tonn og skrápflúran minnkar um 2000 tonn og er nú 1500 tonn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×