Innlent

Kaupmáttur mun lækka tímabundið

Mynd/Heiða Helgadóttir

Búast má við tímabundinni lækkun kaupmáttar, eignaverðs og fjölgun gjaldþrota þegar um hægist í efnahagslífinu, að mati Greiningar Glitnis. Greining telur engu að síður að bjart sé framundan í íslenskum efnahagsmálum.

Samfara hröðum vexti í íslensku efnahagslífi undanfarin misseri hefur myndast verulegt ójafnvægi í þjóðarbúskanum og er líklegt að næstu misseri verði tími aðlögunar að jafnvægi, segir Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Glitnis en þjóðhagsspá banksns fyrir árin 2006 til 2010 kom út í morgun.

Um er að ræða undirbúning fyrir hægan hagvöxt, ekki samdrátt. Lendingin verður þó ekki átakalaus, heldur mun hún fela í sér tímabundna rýrnun kaupmáttar, lækkun íbúðaverðs um 5-10 prósent á næstu 12-24 mánuðum og aukningu vanskila og gjaldþrota svo eitthvað sé nefnt en það ástand mun þó einungis vara í stuttan tíma. Gert er ráð fyrir 4,2 prósenta hagvexti á þessu ári og er vöxturinn í dag drifinn af mikilli innlendri eftirspurn. Viðskiptahalli vegur á móti, en hann mun verða nærri 17 prósentum af landsframleiðslu ársins en verðbólgan hefur þó náð hámarki. Þá er talið að hallinn verði innan við sjö prósent á næsta ári og um þrjú í lok áratugarins. Ingólfur segir einkaneyslu hafa dregist mikið saman að undanförnu og muni halda áfram að gera það á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×