Herskár hópur Kúrda sem kallar sig frelsishauka Kúrdistans hefur lýst sprengjuárásinni í ferðamannaborginni Antalya í Tyrklandi á hendur sér. Þrír létust og fjölmargir særðust. Hópurinn hafði áður lýst fjórum sprengjuárásum í Istanbúl og Marmaris á hendur sér. Enginn féll í þeim árásum en hátt í þrjátíu manns særðust.
Tyrkneska lögreglan er sögð leita tveggja manna sem talið er að hafi átt þátt í árásinni í Antalya sem varð þremur að bana og særði tuttugu. Samtökin sem lýst hafa árásunum á hendur sér eru sögð hafa tengsl við verkamannaflokk Kúrdistans, PKK, en starfsemi hans er bönnuð í Tyrklandi.
Öryggisgæsla hefur verið aukin til muna á ströndum Tyrklands á meðan lögregla leitar þeirra sem komu sprengjunum fyrir. Einn maður hefur verið handtekinn í Izmir grunaður um að hafa átt þátt í misheppnaðri sprengjuárás þar. Maðurinn mun vera liðsmaður PKK að sögn tyrkneskra fjölmiðla. Nokkrir til viðbótar eru í haldi grunaðir um að hafa aðstoðað manninn. Hald var lagt á nokkuð af sprengiefni.
Engan Íslending sakaði í sprengjuárásunum á Marmaris á sunnudagskvöldið en þar eru fjölmargir íslenskir ferðamenn. Hópur þeirra kemur heim um klukkan eitt í dag en á annað hundrað farþegar fara til Tyrklands með Úrval Útsýn og Plúsferðum í dag.
Tyrkir treysta mikið á tekjur af ferðamannaiðnaðium og tilgangur ódæðismannanna er að fæla ferðamenn frá og þar með skaða efnahag landsins.
Þetta eru ekki fyrstu sprengjuárásirnar á ferðamannastaði í Tyrklandi í sumar. Í júní týndu fjórir lífi í sprengjuárás á Antalya.