Innlent

Reyndi að synda í kringum Reykjavík

ÚR MYNDASAFNI Benedikt er að sögn kunnugra er einn öflugasti sjósundkappi landsins.
ÚR MYNDASAFNI Benedikt er að sögn kunnugra er einn öflugasti sjósundkappi landsins. MYND/E.Ól.

Sjósundkappinn Benedikt Lafleur varð í gær fyrsti maðurinn í um hálfa öld til að reyna að synda í kringum Reykjavík. Sundið var liður í undirbúningi kappans fyrir sund yfir Ermasundið eftir rúman mánuð.

Benedikt, sem að sögn kunnugra er einn öflugasti sjósundkappi landsins, hefur undirbúið sig að kappi fyrir Ermasundið undanfarna mánuði. Með tiltækinu vill hann vekja athygli almennings á gildi sjósunds fyrir líkama og sál, en um leið er því ætlað að vekja fólk til vitundar um skuggahliðar nútímans, sem að sögn Bendikts birtist okkur með áberandi hætti í formi mansals.

Sundið í kringum Reykjavík var í þremur áföngum, tæplega 13,5 kílómeters vegalengd í heildina. Engum Íslendingi hefur hvorki tekist að synda yfir Ermasundið né í kringum Reykjavík, en hvort tveggja var reynt fyrir um hálfri öld.

Sundið gekk ágætlega hjá Benedikt, en hann þurfti þó að stoppa hjá Gróttu. Og þegar u.þ.b. einn kílómeter var eftir af þriðja og síðasta leggnum, frá Örfirisey yfir í Grafarvog,  segist kappinn hafa farið að finna fyrir töluverðum kulda í skrokknum og höfðinu. Skynsemin hafi þá sagt honum að stoppa og hann þáði því far hjá björgunarsveitarmönnum sem fylgdu honum eftir þennan síðasta spöl. Benedikt segist þrátt fyrir þetta stefna ótrauður á Ermasundið í lok ágúst, og þeir sem vilja heita á hann geta hringt í síma 562 3500.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×