George Bush Bandaríkjaforseti kom í gærkvöld til Vínar í Austurríki þar sem hann mun funda með leiðtogum Evrópusambandsins. Fundurinn verður í dag og þar hyggst Bush leita aukins stuðnings frá Evrópuþjóðunum í deilunni við Írana um kjarnorkuáætlun þeirra síðarnefndu og við uppbyggingu í Írak. Þá er búist við að viðræður um afnám verndartolla í landbúnaði verði einnig á dagskrá fundarins. Búist er við mótmælum í Vín vegna komu Bush þar sem andstaða er víða í Evrópu gegn utanríkisstefnu Bandaríkjamanna. Reiknað er með að Bush verði hvattur til að loka Guantanamo-fangabúðunum en mikill styrr hefur staðið um þær undanfarin misseri.

