Viðskipti erlent

Stofnandi Opera í Noregi látinn

Geir Ivarsøy, sem lést eftir langvinna baráttu við krabbamein, verður borinn til grafar í dag.
Geir Ivarsøy, sem lést eftir langvinna baráttu við krabbamein, verður borinn til grafar í dag. Mynd/Opera Software

Geir Ivarsøy sem stofnaði Opera Software með Jóni S. von Tetzchner í Noregi árið 1995 lést fyrir um viku síðan eftir langvinna baráttu við krabbamein. Á vef Opera Software í dag er hans minnst, en Geir verður borinn til grafar í dag frá Grefsen kirkju í Osló.

Geir lét ekki mikið fyrir sér fara hjá Opera en lék þess mikilvægara hlutverk í uppbyggingu fyrirtækisins og átti um 15 prósenta hlut í fyrirtækinu, en það var skráð á markaði í Noregi í fyrra.

Jón Tetzchner lýsti fyrir norskum fjölmiðlum í dag hvernig Geir hafi unnið bróðurpart allrar forritunarvinnu þegar þeir tveir stofnuðu fyrirtækið. "Geir vann þann grunn sem Opera byggir á. Mér finnst ekki óviðeigandi að að lýsa honum sem snillingi, reyndar finnst mér það bara mjög við hæfi," er haft eftir Jóni.

Geir Ivarsøy lætur eftir sig eiginkonu og þrjú börn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×