Tónlist

Eberg með lag í The O.C.

Einar Tönsberg er hæstánægður með viðbrögðin við lagi sínu Inside Your Head.
Einar Tönsberg er hæstánægður með viðbrögðin við lagi sínu Inside Your Head. MYND/Valli

Lag með íslenska tónlistarmanninum Eberg var spilað í sjónvarpsþættinum vinsæla The O.C. í Bandaríkjunum síðastliðinn fimmtudag. Fetar hann þar með í fótspor Emilíönu Torrini sem hefur átt fjögur lög í þættinum Grey"s Anatomy.

Lag Ebergs nefnist Inside Your Head og er að finna á annarri sólóplötu hans, Voff Voff, sem kom út fyrr á árinu við góðar undirtektir. Eberg, sem heitir réttu nafni Einar Tönsberg, segir að áhugi framleiðenda The O.C. hafi komið sér mjög á óvart. „Þetta kom til fyrir nokkrum vikum síðan. Ég var aldrei neitt viss með þetta fyrr en þetta var komið í loftið,“ segir Einar.

„Ég hef fengið ótrúlega fín viðbrögð við þessu og lagið er komið í sjötta sæti á iTunes-sölulistanum í Bandaríkjunum undir „electronics“-hattinum.“

Einar, sem gaf nýlega út smáskífulagið The Twinkle Star í Bretlandi, segir þetta hafa verið sérlega óvænt því hann hafi ekki ennþá gefið plötuna út í Bandaríkjunum. „Þetta er bara út í bláinn en það er meiriháttar fínt að þetta fái svona mikið áhorf. Ég var að sjá þetta brot og það er spiluð lengri útgáfa en er á plötunni. Þetta eru síðustu fjórar mínúturnar í þættinum og það er svaka drama í gangi.“

Einar segir ágætar líkur á því að lög hans verði notuð í svipuðum þáttum og The O.C. á næstunni en vill þó ekki gefa neitt upp enn sem komið er. Hann hlær þegar hann er spurður hvort hann sé aðdáandi þáttarins. „Ég er orðinn svaka „fan“ núna,“ segir hann í léttum dúr. „Systur mínar voru að setja mig inn í þetta og þær tjáðu mér að þetta væri mjög mikilvæg sena.“

Systur hans eiga mikið til síns máls því á meðal hljómsveita sem hafa vakið á sér athygli í þættinum eru virtar sveitir á borð við Jet, Zero 7 og Death Cab For Cutie.

The O.C. Fjölmargar hljómsveitir hafa vakið athygli á sér í þessum vinsæla þætti.


.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×