Viðskipti innlent

OMX tekur við rekstri Kauphallar Íslands í dag

Jukka Ruuska OMX og Þórður Friðjónsson Kauphöll Íslands. Jukka Ruuska forstjóri kauphallararms OMX sótti landið heim í byrjun síðasta mánaðar. OMX tekur í dag formlega við stjórn Kauphallar Íslands.
Jukka Ruuska OMX og Þórður Friðjónsson Kauphöll Íslands. Jukka Ruuska forstjóri kauphallararms OMX sótti landið heim í byrjun síðasta mánaðar. OMX tekur í dag formlega við stjórn Kauphallar Íslands. MYND/Vilhelm
OMX kauphallarsamstæðan tekur í dag formlega við rekstri Kauphallar Íslands. Um leið verður OMX skráð með öðrum fyrirtækjum kauphallarinnar. Um áramót hefst samþætting við aðrar kauphallir OMX.

„Þetta eru mikil tímamót,“ segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, en í dag tekur OMX kauphallarsamstæðan formlega við stjórn hennar. Þá verður OMX jafnframt skráð í Kauphöllina hér. „Það er í fyrsta skipti sem er tvíhliða skráning erlends fyrirtækis í Kauphöllina hjá okkur.“ Ferlið er samkvæmt samningi sem gengið var frá um miðjan október.

Breytingar verða strax miklar hjá Kauphöllinni því stjórnin sem verið hefur lætur af störfum um leið og Kauphöllin verður dótturfélag OMX. „Þar tekur ný þriggja manna stjórn við og Jukka Ruuska, sem er forstjóri OMX Exchanges, verður formaður. Með þessu er stefnumótun Kauphallarinnar í raun komin í hendur nýrra aðila og helstu verkefnin sem fram undan eru að samþætta starfsemina við hinar Norðurlandaþjóðirnar,“ segir Þórður. Um áramót taka við sýnilegri breytingar þegar vefviðmóti Kauphallarinnar verður breytt. „Og einhvern tímann á fyrsta ársfjórðungi förum við inn á samnorræna listann og upplýsingar af markaðnum hjá okkur fara í gegnum sömu kerfi og eftir sömu leiðum og upplýsingar um önnur fyrirtæki sem eru skráð í kauphöllum OMX,“ segir Þórður.

Hann segir samrunann og skráningu OMX hér framhald þróunar sem verið hafi á íslenska markaðnum undanfarin ár. „Markaðurinn hefur eflst gríðarlega. Velta með hlutabréf hefur fimmtánfaldast á síðustu fimm árum og verðmæti skráðra hlutafélaga hefur farið úr 50 prósentum af landsframleiðslu í 245 prósent. Þá hefur meðalstærð skráðra fyrirtækja átjánfaldast á sama tíma,“ segir Þórður og kveður Kauphöllina einfaldlega hafa verið komna að þeim tímamótum að nauðsynlegt væri að tengjast stærri alþjóðlegri kauphöll. „Einfaldlega til að geta veitt þessum stóru fyrirtækjum þá þjónustu heima sem við viljum geta veitt.“ OMX segir Þórður svo hafa verið augljósan kost í því sambandi því náið samstarf hafi verið á undanförnum árum við norrænu markaðina, auk þess sem markaðurinn og umgjörð hafi verið áþekk því sem þar gerðist.

Með samrunanum við OMX segir Þórður svo búið að skapa hagfelld skilyrði fyrir áframhaldandi vöxt markaðarins, en hversu mikill hann verði fari svo eftir því hvernig fyrirtækin standi sig. Aðgangur að afleiðumarkaði OMX í maí segir Þórður svo koma til með að ýta undir aukna veltu hér.

Tvíhliða skráningu OMX núna segir Þórður svo fyrst og fremst ætlaða til að kynna fyrir markaðnum fyrirtækið OMX. „Jafnframt gerum við okkur vonir um að í framhaldinu verði OMX bara hluti af íslenska markaðnum, þannig að viðskipti með hlutabréf OMX fari fram með sama hætti og með önnur fyrirtæki á íslenska markaðnum. Þetta eykur breiddina því OMX er með annan bakgrunn en þau fyrirtæki sem fyrir eru í Kauphöllinni.“ olikr@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×