Tónlist

Niðurlæging íslensks popps

Staðreyndin sem blasir við íslenska poppheiminum í dag er einfaldlega sú að hann er gjörsamlega staðnaður og hefur hljómað nær alveg eins í rúm tíu ár. Þetta er sorgleg staðreynd en engu að síður sönn.

Ef einhver getur bent mér á íslenska popphljómsveit sem komið hefur fram á síðustu tíu árum og breytt íslensku tónlistarlandslagi þá má sá og hinn sami endilega gera það. Þessari gagnrýni vil ég sérstaklega beina að Senu, gömlu Skífunni, sem er langstærsti útgefandi íslenskrar tónlistar.

Sena fær hins vegar lof fyrir eitt, útgáfan er alltaf gríðarlega stór og í raun ótrúlegt hvað kemur mikið út af íslenskri tónlist á ári hverju. Hins vegar hefur Sena með þessari stóru útgáfu sinni náð að kæfa aðra aðila á markaðnum og íhaldssemin sem ríkir á þeim bænum er til háborinnar skammar.

Hugmyndafátæktin er algjör og ekkert virðist í kortunum sem bendir til þess að eitthvað sé að fara að breytast. Hvenær ætla menn til dæmis að hætta að gefa út tónlist þar sem textarnir fjalla um „ástir í djúpum dölum" og fólk sem „sakna andlits þíns á kodda mínum"?

Fáir nýliðar hafa komið inn í bransann en í staðinn hefur verið leitað til eldri jaxla á borð við Stebba Hilmars, Jóns Ólafs, Gunna Þórðar og Sigurðar Bjólu svo fáeinir séu nefndir. Spurning hvort við fáum ekki að heyra gullmola aftur á borð við „Síðan liðu árin hratt/ Það kom bleiuþvottur, kvöldvinna og Kiwanis/ Og Parket á gólf" sem hljómuðu á plötu Sléttuúlfanna, Undir bláum mána. Nýliðaleysið má að mestu eða öllu leyti skýra út frá þeirri staðreynd að hæfileikaríkir tónlistarmenn á Íslandi hafa einfaldlega ekki áhuga á að skapa tónlist eins og þá sem hefur verið fjöldaframleidd undanfarin ár. Um það á tónlistarbransinn einmitt að snúast, sköpun, en ekki að græða peninga.

Idol-, ábreiðu- og safnplötur fyrir „miðaldra fólk á öllum aldri" (eins og var sagt í nýlegum plötudómi) eru hreinlegar orðnar þreyttar og íslensk popptónlist er einfaldlega orðin alltof einsleit. Eitthvað þarf að aðhafast í þessum málum. Við getum ekki sífellt verið að gorta okkur af því að hér sé eitt gróskumesta tónlistarlíf heimsins og neita þessum tónlistarmönnum um færi á að njóta sín til fulls í stað þess að hjakka alltaf í sama farinu.

Steinþór Helgi Arnsteinsson





Fleiri fréttir

Sjá meira


×