Viðskipti innlent

Eigendur Magasin kaupa í tískuhúsi

Birgir Þór Bieltvedt
Birgir Þór Bieltvedt

M-Invest, félag í eigu Baugs og Birgis Þórs Bieltvedt, hefur eignast helmingshlut í Day Birger et Mikkelsen, einu frægasta tískuhúsi Danmerkur.

Seljandi bréfanna er félag í eigu forstjórans Keld Mikkelsen sem mun eftir sem áður eiga helmingshlut í tískuhúsinu.

Með kaupunum er verið að styðja við áframhaldandi útrás félagsins á erlenda markaði og frekari vöruþróun og vörusölu. Vörumerkið er selt í yfir eitt þúsund verslunum í nítján löndum, meðal annars í Magasin du Nord og í verslunum í Lundúnum.

„Ég er mjög ánægður með þennan samning. Baugur mun opna okkur möguleika á að nýta viðskiptatækifæri í vöruþróun og félagið hugsar til langs tíma sem mun gera fyrirtækið að spennandi vinnustað til framtíðar,“ segir Keld Mikkelsen.

„Lykilstjórnendur halda áfram að vinna hjá fyrirtækinu en þessi kaup munu skerpa sýn okkar á að þróa félagið í alþjóðlegri samkeppni.“ M-Invest er dóttur-félag M-Holding sem er eigandi vöruhúsanna Magasin du Nord og Illum. Birgir Þór verður stjórnarformaður félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×