Viðskipti innlent

Átján þúsund í hagnaðarlausa geiranum

Ívar Jónsson prófessor
Ívar Jónsson prófessor

Vísbendingar eru um að hér nemi velta svonefnds félagshagkerfis um 47 prósentum af landsframleiðslu. Frá þessu er greint í nýju riti, Félagshagkerfið á Íslandi, eftir dr. Ívar Jónsson, prófessor við Háskólann á Bifröst.

Til félagshagkerfis telst hagnaðarlausi geiri hagkerfisins og frjáls félagssamtök. Í ritinu er gerð tilraun til að meta umfang félagshagkerfisins með tilliti til fjölda félaga og veltu þeirra.

Velta félagshagkerfisins árið 2005 er áætluð rúmir 514 milljarðar króna.

„Samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir veltu yfir 33 milljörðum króna. Önnur félög veltu yfir 10 milljörðum króna, en ætla má að þessi tala sé mun hærri því lítið er vitað um veltu félaga sem ekki greiða virðisaukaskatt,“ segir í skýrslunni, en þar kemur fram að hér séu skráð yfir 18 þúsund félög í hagnaðarlausa geiranum. „Þessi mikli fjöldi bendir til að svæðisbundin grasrótarstarfsemi sé mikil á Íslandi, enda er mikill fjöldi aðildarfélaga að heildarsamtökum á ólíkum sviðum félagsstarfsemi meðtalinn í þessum tölum.“

Ritið má nálgast í heild sinni á slóðinni www.bifrost.is/files/Skra_0016072.pdf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×