Jarðarför krókódílafangarans Steves Irwin, sem lést eftir að hafa fengið brodd úr hala stingskötu í hjartastað á mánudaginn, verður haldin í kyrrþey á næstu dögum að sögn umboðsmanns Irwins.
Ástralskir fjölmiðlar greindu frá því í gær að lík Irwin hefði verið flutt í Australia Zoo-skriðdýragarðinn, sem faðir hans stofnaði á áttunda áratugnum, þar sem lítil minningarathöfn var haldin.
Almenningur mun fá tækifæri til að votta honum virðingu sína við stóra minningarathöfn sem verður haldin fljótlega eftir jarðarförina.