Innlent

Báturinn er tilbúinn í slaginn við hvalina

hvalur 9 og kristján loftsson framkvæmdastóri Hvals hf. Hvalveiðiskipið fór úr slipp í gærdag og er að sögn Kristjáns Loftssonar, þess sem gerir skipið út, klárt í slaginn að hefja hvalveiðar á ný. Kristján segir ekkert því til fyrirstöðu að hvalveiðar hefjist að nýju hér við land.
hvalur 9 og kristján loftsson framkvæmdastóri Hvals hf. Hvalveiðiskipið fór úr slipp í gærdag og er að sögn Kristjáns Loftssonar, þess sem gerir skipið út, klárt í slaginn að hefja hvalveiðar á ný. Kristján segir ekkert því til fyrirstöðu að hvalveiðar hefjist að nýju hér við land. MYND/Vilhelm

"Nú fer hann bara á sinn stað og bíður átekta, það á eftir að gera sitt lítið af hverju en báturinn er til í slaginn," sagði Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf., sem gerir út hvalveiðiskipin fjögur sem setið hafa við Ægisgarð síðan 1989, í tilefni þess að Hvalur 9 var útskrifaður úr slipp í gærdag.

Þegar hvalveiðiskipið var tekið í slipp á dögunum voru sextán ár liðin frá því að það var síðast yfirfarið. "Nú er hann alveg eins og barnsrass og til í hvað sem er," sagði Kristján, sem var augljóslega kampakátur í tilefni dagsins.

Að sögn Kristjáns var skrokkur skipsins í mjög góðu ástandi miðað við tíma í sjó. Skipta þurfti um eins fermetra bút undir sjólínu á stjórnborðssíðu skipsins og að sögn Kristjáns er það í fyrsta sinn sem það er gert frá því að skipið var byggt árið 1956.

Kristján segir ekkert því til fyrirstöðu að hvalveiðar hefjist hér við land að nýju í atvinnuskyni, en neitar að hafa fengið vilyrði um kvóta frá sjávarútvegsráðuneytinu. "Hvalur 8 er í svipuðu standi nú og Hvalur 9 var og ég fer með hann í slipp um leið og gefinn verður út kvóti," segir Kristján. "Hvalstofnarnir hér við land þola vel veiðar og hafa alltaf gert, hvalirnir bíða bara sallarólegir eftir skutlinum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×