Árlegri Þingmannaráðstefnu aðildarríkja Eystrasaltsráðsins lauk í Reykjavík í gær, en á hana mættu þingmenn ellefu þjóðlanda auk fulltrúa af Evrópuþinginu og þingum sjálfstjórnarsvæða og strandhéraða aðildarríkjanna. Meðal þess helsta sem rætt var á ráðstefnunni var framkvæmd hinnar svokölluðu Norðlægu víddar Evrópusambandsins, en í nafni þeirrar stefnu er unnið að ýmsu því milliríkjasamstarfi um mengunarvarnir og annað, sem varðar sameiginlega hagsmuni ríkjanna.
Félagsleg mismunun og hindranir á vinnumarkaði voru einnig ofarlega á baugi umræðunnar. Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður tók þátt í umræðunum. Hann tjáði Fréttablaðinu að auk mengunar- og siglingaöryggismála væru þessi félagslegu mál að komast sterkar á dagskrá. Þau snertu meðal annars vandkvæði í tengslum við frjálst flæði vinnuafls frá fátækari löndunum austan megin við Eystrasaltið, en þau vörðuðu öll aðildarríkin, líka Ísland. Tengd þessu væru líka mál á borð við mansal á ungum konum frá löndunum í austri í vændi til ríkari landanna í vestri. Þessi mál verða meginþema ráðstefnunnar á næsta ári, en þá verður hún haldin í Berlín.
Steingrímur sagði gildi þessa vettvangs fyrir skoðanaskipti þingmanna frá umræddum löndum ekki síst felast í því að á honum sætu einnig fulltrúar Rússlands. Í gegnum Norðurlandasamstarfið, EES-samstarfið og fleiri stofnanir ættu íslenskir fulltrúar náin samskipti við sömu lönd og starfa saman innan Eystrasaltsráðsins, en það væri ein fárra evrópskra samstarfsstofnana þar sem Rússar tækju þátt á jafnréttisgrundvelli.
Gennadíj Khripel, þingmaður á rússneska sambandsþinginu sem á sæti í fastanefnd Þingmannaráðstefnunnar, tjáði Fréttablaðinu að þessi vettvangur hefði í fimmtán ára sögu sinni gegnt mikilvægu hlutverki við að brjóta ís tortryggninnar og byggja upp traust á milli þjóðanna í kringum Eystrasaltið, sem Járntjaldið skildi að á dögum kalda stríðsins.
Diana Wallis, þingmaður á Evrópuþinginu, vakti athygli á því samkomulagi sem í gildi er milli Grænlands og Evrópusambandsins um þann þátt Norðlægu víddarinnar sem snertir málefni norðurheimskautsins. Þannig bæri ekki einungis að líta á Norðlæga vídd ESB í tengslum við Eystrasaltið. Vandamál eins og loftslagsbreytingar og annar umhverfisvandi, sem væru áberandi á norðurslóðum, skiptu einnig máli fyrir Eystrasaltssvæðið. Hún bauð til þingmannaráðstefnu á vegum Evrópuþingsins um Norðlægu víddina í nóvember næstkomandi.