Græna hvelfingin, sögufræg salarkynni í höll í Dresden sem geymdu rómað safn gersema frá barokktímanum, hefur verið opnað á ný, rúmlega sextíu árum eftir eyðileggingu heimsstyrjaldarinnar síðari. Gersemarnar varðveittust flestar þótt höllin hafi verið lögð í rúst, enda var þeim komið fyrir á öruggum stað á stríðsárunum.
Endurbygging salarkynnanna kostaði um 45 milljónir evra, andvirði yfir fjögurra milljarða króna. Um 3.000 fornir listmunir eru á sýningunni. Safnið var á sínum tíma stofnað af Ágúst II "hinum sterka", sem var konungur Saxlands og Póllands og mikill fagurkeri. Hann dó árið 1733.