Innlent

Brussel-skrifstofa kostar 30 milljónir

Anna Margrét guðjónsdottir
Starfsmaður skrifstofunnar í Brussel
Anna Margrét guðjónsdottir Starfsmaður skrifstofunnar í Brussel

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur opnað skrifstofu í Brussel og er hlutverk hennar að gæta hagsmuna íslenskra sveitarfélaga gagnvart Evrópusambandinu og EES-samstarfinu. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga mun leggja tíu milljónir króna til verkefnisins árlega en þetta er tilraunaverkefni til þriggja ára og er áætlaður heildarkostnaður 30 milljónir króna. Starfsmaður skrifstofunnar er Anna Margrét Guðjónsdóttir.

Anna Guðrún Björnsdóttir, sviðsstjóri þróunar- og alþjóðasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir litið svo á að opnun skrifstofunnar sé árangursrík aðferð til að koma sjónarmiðum íslenskra sveitarfélaga á framfæri og byggja upp tengsl til að nýta í hagsmunabaráttu þeirra.

"Íslenska sambandið er meðal síðustu sveitarfélagasambanda í Evrópu til að opna skrifstofu í Brussel en flest þeirra hafa rekið skrifstofu þar um árabil."

Anna Guðrún segir að með opnun skrifstofunnar verði auðveldara að fylgjast með og hafa áhrif á mál sem sveitafélögin eru með á sínum snærum. "Þetta auðveldar okkur einnig að fylgjast með nýmælum og gefur aukið tækifæri til þátttöku í samstarfsverkefnum úti."

Árni Þór Sigurðsson, borgarfulltrúi Vinstri - grænna, var starfsmaður Sambands íslenskra sveitarfélaga um tíma með starfsaðstöðu í íslenska sendiráðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×