Innlent

Byggja 200 íbúðir fyrir eldri borgara

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri

Reykjavíkurborg stefnir á að undirrita viljayfirlýsingu um uppbyggingu á 200 þjónustu- og öryggisíbúðum fyrir eldri borgara á næstunni. Þessar íbúðir verða að öllum líkindum tengdar þjónustukjörnum við Spöngina í Grafarvogi annars vegar og við Sléttuveg hins vegar. 100 íbúðir verða byggðar á hvorum stað. Þetta kom fram í ræðu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar borgarstjóra á fundi borgarstjórnar í gær.

Borgarstjóri gerði jafnframt grein fyrir samráði við eldri borgara í sumar og að á Velferðarsviði væri unnið að tillögum um skipulagðar heimsóknir til eldri borgara til að vinna gegn félagslegri einangrun og breytingum sem hafa orðið á akstursþjónustu aldraðra. Vilhjálmur minntist einnig í ræðu sinni á það sem hann kallar áhugaleysi fyrrverandi meirihluta.

"Staðreyndin er sú að fyrrverandi meirihluti sinnti málefnum eldri borgara í borginni illa. Algjör stöðnun ríkti í uppbyggingu þjónustuíbúða og leiguíbúða fyrir eldri borgara í Reykjavík á síðasta áratug," segir Vilhjálmur. Hann segir tölurnar tala sínu máli og í sumar hafi 347 aldraðir einstaklingar verið á biðlista eftir þjónustuíbúð, 19 eftir heimaþjónustu og 271 eftir hjúkrunarrými.

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir að í ræðu borgarstjóra hafi ekki verið neinar nýjar fréttir. "Það sem hann skreytti sig með voru verkefni sem voru komin í gang áður en nýr meirihluti tók við. Það kreppir mest að verkefnum sem eru unnin í samstarfi við ríkið en borgarstjóri upplýsti ekki um að það hefði komið neinn fjörkippur í það samstarf."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×