Innlent

Fjórðungur sveitarstjóra er konur

Stefanía Katrín Karlsdóttir
Stefanía Katrín Karlsdóttir

Búið er að velja eða ráða sveitar- eða bæjarstjóra í 64 af 79 sveitarfélögum landsins síðan í sveitarstjórnarkosningunum nú í maí. Af þessum 64 sveitarstjórum eru 16, eða fjórðungur, konur og 48 karlmenn, samkvæmt upplýsingum frá félagsmálaráðuneytinu.

Konur eru sveitarstjórar í tveimur af tuttugu stærstu sveitarfélögum landsins. Þar er Mosfellsbær fjölmennastur, en sveitarfélagið Árborg næstfjölmennast. Helga Jónsdóttir tekur við embætti bæjarstjóra Fjarðabyggðar í þessum mánuði og verða þá konur sveitarstjórar í þremur af tuttugu stærstu sveitarfélögum landsins. Karlmenn eru borgar- eða bæjarstjórar í sex stærstu sveitarfélögunum, Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Akureyri, Reykjanesbæ og Garðabæ.

"Þeir sem verða sveitarstjórar eru ýmist pólitískt kjörnir, sem efstu menn á lista, eða ráðnir inn," segir Stefanía Katrín Karlsdóttir, bæjarstjóri í Árborg. "Mér sýnist þessi skipting endurspegla hlut kvenna í stjórnunarstöðum í atvinnulífinu. Þetta er kynjaskipting innan samfélagsins í hnotskurn, sýnist mér. Mér finnst að alltaf eigi að ráða hæfasta einstaklinginn til starfa, en hvort karlmenn eru hæfastir í þremur af fjórum tilvikum hef ég ekki hugmynd um."

Alls búa 27.289 Íslendingar í sveitarfélögum undir stjórn kvenkyns sveitarstjóra. Það er um níu prósent af heildarfjölda Íslendinga.

"Við teljum að jafnrétti hafi verið náð þegar hvorugt kynið hefur minni hlut en fjörutíu prósent í sveitarstjórnum," segir Hugrún R. Hjaltadóttir, sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu.

"Það virðist vera sem konur nái ekki yfir þrjátíu prósentin í íslensku samfélagi. Tilhneigingin með röðun á lista var mikið til sú að karlmenn væru í 1. sæti og konur 2. sæti. Þá segir sig sjálft að það sé ólíklegra fyrir konur að komast í áhrifastöður. Auðvitað þurfa að vera fleiri konur í forsvari fyrir sveitarstjórnir. Þetta er slæm staða," segir Hugrún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×