Innlent

Taka verður tillit til veðráttunnar

Kormákur geirharðsson Segir að heimila verði áfenga drykki á reyk­svæðunum.
Kormákur geirharðsson Segir að heimila verði áfenga drykki á reyk­svæðunum.

„Við erum þegar farnir að velta fyrir okkur hvers konar aðstöðu verði best að koma upp fyrir reykingafólk,“ segir Kormákur Geirharðsson, annar eigandi Ölstofunnar.

Þegar reykingabann á veitingastöðum tekur gildi um mitt næsta ár verða reykingar bannaðar á þeim stöðum sem ekki hafa komið upp sérstakri aðstöðu fyrir reykingafólk.

Kormákur segir að taka verði tillit til veðráttu hér á landi við uppsetningu reyksvæðanna en það er heilbrigðisráðherra sem nú fer yfir nánari útfærslur á reyk­svæðunum. „Maður spyr sig hvort tjald flokkist sem þak á reyksvæðinu og hvort leyfilegt verði að vera með gashitara á svæðinu sem verður að hluta óvarið fyrir veðri og vindum.“ Kormákur segir að enn eigi eftir að ákveða hvort heimilt verður að vera með áfenga drykki á reyksvæðinu. „Þetta má ekki verða eins og í Noregi þar sem bannað er að reykja inni og bannað að drekka úti.“

Kormákur segir kostnað veitingahúsaeigenda við að koma upp reyksvæðum verða mismikinn og staðir eins og Hressó sleppi líklega við allan kostnað.

„Það er hins vegar ljóst að erfitt verður að byggja út á Laugaveg og nálægar hliðargötur og kostnaður veitingahúsaeigenda verður að öllum líkindum meiri á þessu svæði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×