Innlent

Sjúklingar sendir á milli landshluta

SJÚKRAHÚSIÐ Á EGILSSTÖÐUM
Þar hefur gengið erfiðlega að fá fólk til starfa
SJÚKRAHÚSIÐ Á EGILSSTÖÐUM Þar hefur gengið erfiðlega að fá fólk til starfa

Tvo til fimm starfsmenn vantar til starfa á hvert sjúkrahús á Austurlandi. Vegna mönnunarvanda við sjúkrahúsin í fjórðungnum hefur þurft að senda sjúklinga á milli byggðarlaga.

Stefán Þórarinsson, lækningaforstjóri á Heilbrigðisstofnun Austurlands, segir sérstaklega erfitt að fá faglært starfsfólk eins og lækna til starfa. Þenslan á svæðinu hefur einnig gert það að verkum að erfiðlega hefur gengið að manna stöður ófaglærðs starfsfólks.

Sjúkrahúsin í fjórðungnum eru þrjú; á Egilsstöðum, Seyðisfirði og fjórðungsjúkrahúsið í Neskaupstað en það er einnig eina sjúkrahúsið í fjórðungnum sem sinnir fæðingarhjálp. Stefán segir skort á ljósmæðrum koma í veg fyrir að hægt sé að sinna þeirri þjónustu við sjúkrahúsið á Egilsstöðum en fæðingarþjónusta var aflögð þar fyrir tveimur árum síðan.

Gamalt fólk getur lent í því að vistast fjærri heimabyggð vegna mönnunarvandans en það er misjafnt hvar hann er mestur. Þrátt fyrir þetta óhagræði hefur fólk tekið þessu með jafnaðargeði.

Stefán segir heilbrigðisstofnanir á Austurlandi hafa auglýst eftir starfsfólki án árangurs. Í uppganginum sem hér er núna sækir fólk í betur launuð störf og heilbrigðistofnanirnar eru ekki samkeppnisfærar um vinnuafl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×