Innlent

Ófaglærðir ráðnir til starfa

Lenda í ýmsu Störf lögreglumanna eru krefjandi andlega og líkamlega en laun þeirra endurspegla það ekki.
Lenda í ýmsu Störf lögreglumanna eru krefjandi andlega og líkamlega en laun þeirra endurspegla það ekki. MYND/Stefán

"Ég fullyrði að slíkt tíðkast hvergi annars staðar í hinum vestræna heimi og er til háborinnar skammar," segir Páll E. Winkel, framkvæmdastjóri Landssambands lögreglumanna. Mikill skortur er á fagmenntuðum lögreglumönnum, sérstaklega í Reykjavík, og getur nánast hver sem er sótt um starf og fengið án þess að hljóta til þess nokkra menntun.

Þetta gagnrýnir Páll harðlega og fullyrðir að slík vinnubrögð tíðkist aðeins hérlendis. Margir þeir sem klári nám við Lögregluskólann hverfi fljótlega til annarra starfa og telur Páll allnokkrar ástæður fyrir því. "Lág laun fyrir erfiða vinnu er líklegast stærsta ástæðan að mínu mati enda laun lögreglumanna skammarlega lág.

Önnur ástæða er eflaust sú að fólk á misgott með að læra að taka á því sem fyrir getur komið í starfinu og það kemur ekki í ljós fyrr en á reynir. En það er dapurlegt að vita að ófaglært fólk starfi sem lögreglumenn því starfið er afar krefjandi og það þarf að stunda af mikilli fagmennsku. Laun lögreglumanna þurfa að hækka svo hægt verði að ráða til starfans menntað fólk sem hefur vilja og metnað til að stunda þessi erfiðu störf."

Mánaðartekjur lögreglumanns á fyrsta ári sem útskrifaður er úr lögregluskólanum eru í dag tæpar 170 þúsund krónur að meðaltali og laun lögreglumanns eftir fimmtán ára starf eru kringum 250 þúsund krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×