Reuters-fréttastofan hefur slitið öll tengsl við ljósmyndarann Adnan Hajj í Beirút, sem varð uppvís að því að breyta tveimur ljósmyndum frá átökunum í Líbanon. Reuters hefur eytt öllum 920 myndum ljósmyndarans úr gagnagrunni sínum.
Ljósmyndin sem kom upp um Hajj var af afleiðingum loftárásar Ísraelshers á úthverfi í Beirút. Hajj hafði notað myndvinnsluforrit til að láta líta út fyrir að meiri og dekkri reykur stigi upp frá byggingunum. Hajj hefur einnig unnið fyrir AP-fréttastofuna, þar sem nú eru skoðaðar allar myndir hans og leitað að fölsunum.