Innlent

Aukinn kraftur í rannsóknir

kröfluvirkjun Hugmyndir eru uppi um að stækka virkjanir Landsvirkjunar á Norðausturlandi.
kröfluvirkjun Hugmyndir eru uppi um að stækka virkjanir Landsvirkjunar á Norðausturlandi.

Landsvirkjun setur nú aukinn kraft í rannsóknir á Norðausturlandi í tengslum við viðræður Alcoa um álver á Húsavík að sögn Bjarna Pálssonar, verkfræðings hjá Landsvirkjun.

Í gær var kynnt tilboð sem barst í borun fjögurra rannsóknarhola á svæðinu en þeim er ætlað að kortleggja grunnvatnsstrauma og gefa upplýsingar um jarðfræði á svæðinu.

„Þetta er aðallega hugsað fyrir umhverfisrannsóknir á þessum svæðum og í tengslum við orkuvinnsluhugmyndir. Við þurfum að kynna okkur grunnvatnsstrauma upp á umhverfismat, náttúrufarsrannsóknir og almenna þekkingu á svæðinu.

Hugmyndir eru uppi um að stækka virkjanir Landsvirkjunar í Kröflu og í Bjarnarflagi og einnig um að byggja virkjun á Þeistareykjum til að mæta aukinni orkuþörf í framtíðinni, að sögn Bjarna. „Við höfum rannsakað svæðið þarna í rúm tuttugu ár en segja má að sá kraftur sem er í rannsóknunum núna tengist viðræðunum við Alcoa um álver á Húsavík.“

Aðeins eitt tilboð barst í þetta tiltekna verk og er það tæplega sextíu prósentum hærra en kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir. Ræktunarsamband Flóa og Skeiða gerði tilboð upp á 86.642.610 krónur en kostnaðar­áætlun hljóðar upp á 35,1 milljónir króna. Farið verður yfir tilboðið á næstu vikum og ákveðið hvort gengið verður að því að sögn Bjarna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×