Innlent

Banaslys við Eystri-Rangá

Banaslys varð síðdegis í gær á Suðurlandsvegi við Eystri-Rangá.

Karlmaður á þrítugsaldri sem var á leið austur á mótorhjóli missti stjórn á hjólinu vestan megin við brúna yfir ána og lenti á rörstokki. Talið er að maðurinn hafi látist samstundis, en hann lenti við bakka árinnar og hjólið kastaðist út í ána. Lögregla telur ekki að um hraðakstur hafi verið að ræða.

Á níunda tímanum í gærkvöldi ók sendibíll á staur á Vesturlandsvegi. Í fyrstu var talið að ökumaður sæti fastur inni í bílnum en þegar sjúkraliðar komu á staðinn kom í ljós að hann hafði kastast úr bílnum við áreksturinn. Hann var með meðvitund þegar sjúkrabíll kom á staðinn, en þegar blaðið fór í prentun var óljóst hve alvarleg meiðsl hans voru.

Mikil umferð var til Reykja­víkur í gær enda ferðahelgi að ljúka. Á tímabili var umferðin svo mikil að óslitin röð lá frá borgarmörkunum upp að rótum Esjunnar. Að sögn lögreglu var einnig töluverður straumur bíla á leið til borgarinnar frá Selfossi en þar gekk öll umferð vel fyrir sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×