Innlent

Töldu lögreglumenn vera farsímaþjófa

Héraðsdómur Reykjaness Báðir hafa mennirnir margsinnis komist í kast við lögin og var annar maðurinn einnig dæmdur fyrir fjóra þjófnaði á síðasta ári.
Héraðsdómur Reykjaness Báðir hafa mennirnir margsinnis komist í kast við lögin og var annar maðurinn einnig dæmdur fyrir fjóra þjófnaði á síðasta ári.

Tveir karlmenn á þrítugsaldri voru í Héraðsdómi Reykjaness dæmdir í sektir og fangelsi fyrir líkamsárás, eignaspjöll og þjófnaði.

Mennirnir tveir réðust í júní í fyrra að ómerktum lögreglubíl í Hafnarfirði eftir að hafa veitt honum eftirför og króað hann af. Þeir brutu báðar fremri hliðarrúður bílsins þannig að glerbrotum rigndi yfir óeinkennisklæddu lögreglumennina tvo sem í bílnum sátu, en lögreglumennirnir hlutu af því skurði og rispur. Mennirnir höfðu ætlað að aðstoða kunningja sinn við að endurheimta farsíma sem tekinn hafði verið upp í fíkniefnaskuld en rugluðust á bílum og réðust á lögreglumennina. Annar árásarmannanna hlaut hundrað þúsund króna fjársekt fyrir athæfið.

Hinn maðurinn var einnig sakfelldur fyrir fjögur innbrot og þjófnaði, þar sem hann stal peningum og ýmsu góssi að verðmæti tæpar fimm hundruð þúsund krónur. Sá hlaut níu mánaða fangelsisdóm, þar af átta mánuði skilorðsbundna til þriggja ára, auk fjársekta til handa ríkisins og þeirra sem hann rændi, samtals tæpar sex hundruð þúsund krónur. Báðir mennirnir hafa margsinnis komist í kast við lögin. Annar hefur frá árinu 1997 hlotið þrettán dóma og verið dæmdur í 35 mánaða fangelsi samanlagt. Hinn hefur frá árinu 1998 hlotið átta dóma og samtals 24 mánuði í fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×