Innlent

Upptökin voru sígarettuglóð

sviðin jörð Hér sést hvar sinueldurinn hefur staðnæmst við plógförin. Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri segir mildi að ekki fór miklu verr.
sviðin jörð Hér sést hvar sinueldurinn hefur staðnæmst við plógförin. Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri segir mildi að ekki fór miklu verr. mynd/sveinn runólfsson

Tæpur hektari lands á Gára í landi Landgræðslunnar í Rangárvallasýslu varð eldi að bráð í gær. Þakka má snarræði starfsmanna Landgræðslunnar í Gunnarsholti að ekki fór miklu verr þar sem tæpir þrjú þúsund hektarar af þurrum gróðri, sem er gömul uppgræðsla er þarna í kring og hefði hæglega getað orðið eldinum að bráð.

Starfsmenn Landgræðslunnar urðu varir við sinueldinn, sem var í tæplega fjögurra kílómetra fjarlægð frá Gunnarsholti, um tvöleytið og brugðust skjótt við að sögn Sveins Runólfssonar Landgræðslustjóra.

„Við fórum með fimm skera plóg að eldinum og plægðum upp þriggja metra breitt U-laga belti í veg fyrir hann. Eldurinn stöðvaðist við plógförin og svo dældum við vatni á hann úr vatnstönkum frá Gunnarsholti og Keldum. Slökkviliðið frá Hellu kom svo um þrjúleytið og aðstoðaði við að slökkva eldinn en slökkviliðsmenn höfðu verið í öðru útkalli þegar tilkynningin barst.“

Sveinn segir greinilegt að upptök eldsins hafi verið að sígarettu hafi verið fleygt út um bílglugga. „Það er mjór tangi sem liggur frá veginum og miðað við vindátt og annað fer ekki milli mála að sígarettuglóð kveikti eldinn.“

Sveinn segir mikla mildi að ekki fór verr þar sem mjög mikill eldsmatur sé á þessu svæði og veður þurrt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×