Innlent

Fjórðungslækkun síðar á þessu ári

björn ingi hrafnsson
björn ingi hrafnsson

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í gær að lækka gjaldskrá leikskóla borgarinnar.

Námsgjald verður lækkað um fjórðung frá og með 1. september næstkomandi. Þar að auki verður systkina­afsláttur með þeim hætti að aðeins þarf að borga fyrir eitt barn í fjölskyldu fyrir leikskólavistun, óháð fjölda systkina.

Lækkunin á gjaldskrá leikskólanna leiðir til lækkunar á tekjum borgarinnar upp á rúmlega 93 milljónir króna, en þar að auki munu framlög borgarinnar til einkarekinna leikskóla hækka um fimmtán milljónir, því er kostnaður borgarinnar við breytinguna rúmar 108 milljónir króna.

Björn Ingi Hrafnsson, oddviti Framsóknarflokksins og forseti borgarsjórnar, segir þetta mikla kjarabót fyrir fjölskyldufólk í borginni.

„Þetta er algjör viðbót vegna þess að Reykjavíkurborg hefur unnið að áformum um gjaldfrjálsan leikskóla og gerði ekki ráð fyrir neinni lækkun á gjaldskránni á þessu ári út af þeirri vinnu. Í ljósi umræðu um verðbólgu og almenna hækkun í samfélaginu hljóta þetta að vera frábær tíðindi inn í þá umræðu,“ segir Björn Ingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×