Innlent

Stálu 10 til 15 milljónum

„Þetta reyndust ekki nógu nákvæmar upplýsingar sem lögregla veitti Fréttablaðinu. Hið rétta er að þær upphæðir sem stolið hefur verið úr heimabönkum fólks nema tíu til fimmtán milljónum króna,“ sagði Hörður Jóhannesson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Reykjavík.

Eins og greint var frá í Fréttablaðinu í gær eru fjögur umfangsmikil þjófnaðarmál úr heimabönkum til rannsóknar hjá lögreglunni í Reykjavík. Grunur lék á að um peningaþvætti væri að ræða í sumum tilvika.

Rannsókninni hefur miðað vel og er hún nú á lokastigi. Samkvæmt fyrstu upplýsingum Fréttablaðsins um upphæðir þær sem millifærðar höfðu verið af reikningum fólks var um nær tuttugu milljónir króna að ræða. Við nánari samantekt lögreglu kom í ljós að upphæðin nemur tíu til fimmtán milljónum króna.

Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, segir varðandi skaða fólks að það sé í raun hvers banka fyrir sig að meta hvernig brugðist sé við. Hins vegar hafi meginlínan verið sú að ef ekkert benti til gáleysis viðskiptavinar við meðferð bankaupplýsinga fengi hann skaðann bættan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×