Innlent

Tíu aðrar leiðir vannýttari

Stjórn Strætó bs. ákvað að leggja niður leið S5, að sögn Ásgeirs Eiríkssonar framkvæmdastjóra, vegna þess að mestan hluta leiðarinnar aka aðrar leiðir líka.

Athygli vekur að tíu aðrar akstursleiðir eru verr nýttar en leið S5 samkvæmt nýtingarstuðli.

Stúdentaráð Háskóla Íslands gagnrýnir harðlega þessa ákvörðun. Það áætlar að ferðatími stúdents frá Árbænum, hverfinu sem leið S5 hefur þjónustað hingað til, og niður í háskóla muni tvöfaldast við breytingarnar.

Í yfirlýsingu frá Strætó bs. vegna þessa segir að biðtími við tengingu á milli leiðar 19 og stofnleiðar 6, sem hægt er að nýta sér í stað fimmunnar, verði að hámarki þrjár mínútur og því muni ferðatími ferðalangs ekki tvöfaldast. Jafnframt mun aukavögnum verða bætt við á annatímum til að vega upp á móti fækkun ferða á stofnleiðum.

Stúdentaráð segir enn fremur að farþegum Strætó muni fjölga með því að nútímavæða þjónustuna, eins og segir í yfirlýsingunni. Stúdentaráðið vill að boðið verði upp á fjölbreyttari greiðslumáta og tíðari ferðir.

Að lokum leggur SHÍ til að ókeypis verði í vagna Strætó í septembermánuði á þessu ári. Ráðið telur að þannig gefist borgarbúum tækifæri til að kynnast samgöngumátanum.

Samkvæmt Ásgeiri er í farvatninu að taka upp nýjungar varðandi greiðslumáta með tilkomu svokallaðra Smartkorta í ágúst á þessu ári. Önnur nýjung sem fyrirtækið skoðar er svokallaðar rauntímaupplýsingar, þar sem farþegum gefst kostur á að sjá af skjá nákvæmlega hversu margar mínútur eru í næsta strætisvagn á viðkomandi stoppistöð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×