Utanríkisráðuneyti Rússlands hefur staðfest að fjórir sendiráðsstarfsmenn Rússlands í Írak hafi verið myrtir af lítt þekktum hópi uppreisnarmanna sem talinn er tengjast al-Kaída-hryðjuverkanetinu.
Uppreisnarmennirnir kröfðust þess að rússneski herinn drægi lið sitt frá Tétsníu og sleppti múslimum úr rússneskum fangelsum, en flestir íbúa Tétsníu eru múslimar.
Rússneska ríkisstjórnin, sem var mótfallin árás Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra á Írak, hefur krafist þess að stjórnvöld í Bagdad sjái til þess að enginn glæpamannanna sleppi við refsingu. Er þeirra nú leitað af þarlendum stjórnvöldum.