Írösk stjórnvöld hafa handtekið mann sem grunaður er um aðild að sprengjuárásinni á Gullnu moskuna í Samarra í febrúar. Hinn handtekni, sem er sagður vera frá Túnis, heitir Yousri Fakher Mohammed Ali en gengur einnig undir nafninu Abu Qudama.
Hann er þó ekki talinn vera forsprakki árásarinnar á moskuna. Höfuðpaurinn er sagður heita Haitham Sabah Shaker Mohammed al-Badri, en hann hefur ekki verið handsamaður.
Þeir Abu Qudama og al-Badri voru í hópi með tveimur Írökum og fjórum Sádi-Aröbum þegar þeir gerðu árásina á Gullnu moskuna þann 22. febrúar síðastliðinn. Þeir komu fyrir sprengjum í moskunni, sem er tólf hundruð ára gömul og einn helgasti staður sjía-múslima.
Árásin vakti mikla reiði meðal sjía-múslima og brutust út harkaleg átök milli þeirra og súnní-múslima, en sjíar kenndu súnnum um árásina. Átökin stóðu vikum saman og kostuðu hundruð manna lífið. Meira en 20 þúsund fjölskyldur hröktust að heiman og tugir moskna voru eyðilagðar eða skemmdar.