Abdel Rahman Zeidan, ráðherra í palestínsku heimastjórninni, leiðrétti fréttaflutning af samkomulagi milli Hamas-samtakanna og Fatah-hreyfingarinnar í gærkvöldi. BBC hefur eftir honum að í samkomulaginu milli Hamas og Fatah væri ekki minnst einu orði á viðurkenningu á Ísraelsríki. Þetta hefur enginn samþykkt. Þetta var aldrei á borðinu.
Fréttamaður BBC segir að í plagginu samþykkta sé einungis talað um myndun ríkis Palestínumanna og hvernig skuli unnið að henni. Þetta hafi hingað til verið talið hluti af tveggja ríkja lausninni, og var því reiknað með að samkomulagið síðan í gær viðurkenndi tilvist Ísraels, þótt á óbeinan máta væri. Þetta virðist nú hafa verið oftúlkun.
Hamas-liðar telja samkomulagið samt sem áður sögulegan viðburð, en það er ávöxtur nokkurra vikna hatrammra samningaviðræðna milli þessara stríðandi fylkinga.
Benita Ferrero-Waldner, stjórnarmaður utanríkismálanefndar Evrópusambandsins, tók tilkynningunni fagnandi en sagði að meira þyrfti til að ESB veitti heimastjórninni aftur beina neyðaraðstoð. Samkomulagið væri einungis upphaf ferlis að áðurtöldum markmiðum. Talsmaður Hvíta hússins tók í sama streng.