Enn berast fréttir af því úr Formúlu 1 að illa gangi að reka braut í mótinu og nú er það Hockenheim-brautin í Þýskalandi sem er sögð standa verulega höllum fæti fjárhagslega.
Þýska blaðið Bild greinir frá þessu nú fyrir stuttu og segir að ástæða þess að ekki sé séð fram á að rekstur brautarinnar gangi mikið fram á sumarið, er sú að gengi þjóðhetjunnar Michael Schumacher hefur dalað mikið.
Eins og fram hefur komið á undanförnum mánuðum eru Ítalíu- og Belgíukappaksturinn einnig í slæmri fjárhagsstöðu og vilja menn meina að Bernie Ecclestone og mógularnir í íþróttinni séu að blóðmjólka keppnishaldara. "Fólk í Þýskalandi lét sér einu sinni ekki muna um að kaupa miða á Hockenheim fyrir 300 evrur fyrir miðann, en nú er öldin önnur," segir í Bild.