Viðskipti innlent

Hlutabréfamarkaðurinn lækkaði

Íslenski hlutabréfamarkaðurinn lækkaði í dag í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Bretlandi. Úrvalsvísitalan lækkaði mest um 2% innan dags en endaði daginn í 4154,18 stigum sem er 0,8% lækkun. Flest félög innan Úrvalsvísitölunnar lækkuðu mikið í kjölfar ódæðanna í morgun og lækkuðu mörg þeirra um 2-3% en lækkanirnar hafa svo að hluta til gengið til baka. Hlutabréfamarkaðir um allan heim lækkuðu skarpt eftir árásirnar en virðast vera að jafna sig. Breska FTSE 100 vísitalan lækkaði um 4% í miklum viðskiptum eftir árásirnar en öll félög vísitölunnar lækkuðu. Heldur hafði dregið úr lækkuninni og um fimmleytið var hún um 1,4%. Pundið veiktist mikið eftir árásirnar og hefur ekki lækkað meira gegn Evru í 17 mánuði. Hlutabréf í flugfélögum og ferðaþjónustu lækkuðu einna mest og lækkaði Easyjet um 8% innan dags. Á fimmta tímanum hafði félagið lækkað um 3,78% en FL Group á um 11,5% hlut í því. Breska fréttastofan Reuters hefur eftir miðlara þar að seljanleiki hafi horfið á markaðinum um tíma rétt eftir árásirnar og að hvorki kaup né sölutilboð hefðu verið til staðar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×