Sport

Enn ekkert gull í körfuboltanum

Íslenska karlalandsliðið endaði í öðru sæti þriðju Smáþjóðaleikana í röð. Kýpur tryggði sér fimmta gullið í röð með því að vinna stærsta sigurinn á Íslandi í sögu leikanna Körfuboltalandsliðin þurftu bæði að sætta sig við silfur á Smáþjóðaleikunum í Andorra og lengist því biðin eftir gullinu um að minnsta kosti tvö ár í viðbót. Silfrið kom í hús hjá körlunum í gær þegar íslenska liðið vann 12 stiga sigur á San Marínó, 94-82, í fjórða og síðasta leik sínum. Magnús Þór Gunnarsson skoraði 27 stig í leiknum og Hlynur Bæringsson bætti við 17 stigum. Þeir Magnús og Hlynur voru tveir stigahæstu menn íslenska liðsins á Smáþjóðaleikunum, Magnús Þór var með 17,5 stig að meðaltali í leik og Hlynur skoraði 16 stig og tók 10 fráköst í leik. Nýi Íslendingurinn Darrel Lewis skoraði hinsvegar bara 9,3 stig að meðaltali og varð fjórði stigahæstur á eftir Sigurði Þorvaldssyni sem skoraði 10,8 stig í leik. Ísland hefur bara unnið eitt gull á síðustu sex leikum og það unnu stelpurnar á heimavelli 1997. Karlalandsliðið hefur ekki unnið Smáþjóðaleikanna síðan á Möltu fyrir tólf árum en þeir voru þó mun nærri gullinu á síðustu tveimur leikum en í Andorra þar sem Ísland tapaði með 24 stigum gegn Kýpur í óopinberum úrslitaleik. Frá því að karlaliðið vann gull tvö ár í röð í Andorra 1991 og á Möltu 1993 hefur uppskera liðsins verið þrjú silfur og tvö brons. Biðin eftir gullinu er því orðin löng, alltof löng af mati flestra sem hafa á sama tíma séð íslenska liðið vinna sig upp metorðalistann í Evrópukeppninni. 1995 tapaði íslenska landliðið fyrir heimamönnum í Lúxemburg, 86-95, í undanúrslitunum en vann síðan San Marínó í leik um þriðja sætið. Tveimur árum síðar hófst Kýpurmartröð íslenska liðsins sem tapaði undanúrslitaleiknum fyrir Kýpur í Smárunum með 15 stigum, 64-79. Ísland vann síðan Lúxemburg örugglega í leiknum um þriðja sætið. 1999 var ekki keppt í körfubolta en tveimur árum síðar tapaði íslenska liðið með 14 stigum fyrir Kýpur í úrslitaleik. Vonbrigðin voru örugglega mest á Möltu fyrir tveimur árum þegar íslensku strákarnir misstu niður unnan úrslitaleik gegn Kýpur. Ísland náði mest 16 stiga forskoti um miðja þriðja leikhluta, 58-42, en varð á endanum að sætta sig við tveggja stiga tap, 77-79. Í ár átti íslenska liðið aldrei möguleika í lið Kýpur sem komst í 21-7, leiddi með 21 stigi í hálfleik, 21-46, og vann leikinn að lokum með 24 stigum, 66-80. Þetta er stærsta tap Íslands á Smáþjóðaleikunum frá upphafi og bætti reyndar gamla metið um heil 9 stig. Íslenska liðið hefur aðeins tapað fjórum leikjum á leikunum frá 1997, öllum fyrir Kýpur og allir hafa þeir kostað íslenska liðið gullið. Það vantaði vissulega í íslenska liðið, þjálfarinn Sigurður Ingimundarson og fyrirliðinn Friðrik Stefánsson sátu báðir heima, þá var Jón Arnór Stefánsson meiddur og þeir Jakob Sigurðarson og Logi Gunnarsson komust ekki til Andorra. Engu að síður mættum við með mjög frambærilegt sem ætti að gera betur en að steinliggja fyrir Kýpurbúum sem hafa unnið gullverðlaunin á fimm Smáþjóðaleikum í röð. Bið karlalandsliðsins eftir gulli á leikunum:2005 2. sæti 2003 2. sæti 2001 2. sæti 1999 Ekki keppt 1997 3. sæti 1995 3. sæti 1993 1. sæti 1991 1. sæti



Fleiri fréttir

Sjá meira


×