Ósamkvæmni Vinstri grænna 27. maí 2005 00:01 Forystumenn Vinstri grænna í borgarstjórn Reykjavíkur hafa lýst andstöðu við hugmyndir um að Orkuveitan selji raforku til álvers sem rætt er um að byggja í Helguvík á Reykjanesi. Alfreð Þorsteinsson stjórnarformaður Orkuveitunnar lætur sér þetta greinilega í léttu rúmi liggja enda má hann vita að alltaf er hægt að mynda nýjan meirihluta í borgarstjórn ef Vinstri grænir verða til vandræða. Afstaða Vinstri grænna er að ýmsu leyti einkennileg. Það er ekki verið að ræða um að reisa álver í Reykjavík. Eiga borgaryfirvöld hér að ráða því hvaða atvinnufyrirtæki eru reist í öðrum sveitarfélögum? Eiga þau að setja það sem skilyrði fyrir orkusölu að kaupandinn sé "umhverfisvænn"? Er það ekki heldur mikil forsjárhyggja og afskiptasemi af lögmætum ákvörðunum í öðrum sveitarfélögum? Í þessu máli skírskota Vinstri grænir til þess að þeir séu umhverfisverndarflokkur. Andstaðan við orkusölu til álvers sé á þeim grunni byggð. Hún sé reist á hugsjónum og varðstöðu um málefnagrundvöll flokksins. En þá er eðlilegt að krafist sé samkvæmni í málflutningi og vinnubrögðum. Vinstri grænir koma því miður ekki vel út úr slíku prófi. Ekki yfirgáfu þeir kjötkatla Ráðhússins vegna Kárahnjúkavirkjunar. Og nú þegar R-listinn er að undirbúa stórfelld umhverfisspjöll í nágrenni Öskjuhlíðar og Nauthólsvíkur blæs fulltrúi þeirra, sem er formaður umhverfisráðs Reykjavíkur, á alla gagnrýni, hafnar því að fyrirhugaðar framkvæmdir vegna Háskólans í Reykjavík fari í umhverfismat og smíðar sér furðulegar röksemdir til að hnekkja því að háskólalóðin skaði eitt vinsælasta útivistarsvæði borgarbúa. Flokkur sem er ekki sjálfum sér samkvæmur er ekki trúverðugur. Ástæðan fyrir því að Alfreð Þorsteinsson kímir þegar fulltrúar Vinstri grænna eru með ólund er ekki bara sú að hann getur reitt sig á stuðning Sjálfstæðisflokksins á úrslitastundu heldur þykist hann líklega vita að á endanum eru umhverfisverndarmál ekki nógu stór og þýðingarmikil til að Vinstri grænir láti meirihlutasamstarfið í borgarstjórn lönd og leið fái þeir sínu ekki framgengt. Alfreð þekkir sína samstarfsmenn. Þess vegna hefur hann fyrirskipað að undirbúningur orkusölunnar skuli settur í fullan gang. Sjálfsagt er að ræða á opinberum vettvangi um álver og stóriðju og eðlilegt að um slík efni séu skiptar skoðanir. En þegar til lengri tíma er litið er hætt við að menn muni fremur minnast Vinstri grænna vegna umhverfisspellvirkjanna í Nauthólsvíkinni, gangi þau fram, heldur en deilnanna um orkusölu til álvers í Helguvík. Í stað friðsæls útivistarsvæðis og sérstæðrar náttúru og fuglalífs munum við sjá steinsteypublokkir, malbikaðar flatir og þúsundir ökutækja spúandi olíu og bensíni. Þá verður sagt: Þetta var nú árangurinn af stjórnartíð Vinstri grænna í Reykjavík. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Magnússon Mest lesið Umgengnistálmanir – brot á réttindum barna Einar Hugi Bjarnason Skoðun Takk starfsfólk og forysta ÁTVR Siv Friðleifsdóttir Skoðun Meðsek um þjóðarmorð vegna aðgerðaleysis? Pétur Heimisson Skoðun Eldra fólk, þolendum ofbeldis oft ekki trúað Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir Skoðun Þjóðarmorðið í Palestínu Arnar Eggert Thoroddsen Skoðun Tóbakslaust Ísland! - Með hjálp stefnu um skaðaminnkun Bjarni Freyr Guðmundsson Skoðun Tölfræði og raunveruleikinn Jón Frímann Jónsson Skoðun Ytra mat í skólum og hvað svo? Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Tími ábyrgðar í útlendingamálum – ekki uppgjafar Friðþjófur Helgi Karlsson Skoðun Sorglegur uppgjafar doði varðandi áframhaldandi stríðin í dag Matthildur Björnsdóttir Skoðun
Forystumenn Vinstri grænna í borgarstjórn Reykjavíkur hafa lýst andstöðu við hugmyndir um að Orkuveitan selji raforku til álvers sem rætt er um að byggja í Helguvík á Reykjanesi. Alfreð Þorsteinsson stjórnarformaður Orkuveitunnar lætur sér þetta greinilega í léttu rúmi liggja enda má hann vita að alltaf er hægt að mynda nýjan meirihluta í borgarstjórn ef Vinstri grænir verða til vandræða. Afstaða Vinstri grænna er að ýmsu leyti einkennileg. Það er ekki verið að ræða um að reisa álver í Reykjavík. Eiga borgaryfirvöld hér að ráða því hvaða atvinnufyrirtæki eru reist í öðrum sveitarfélögum? Eiga þau að setja það sem skilyrði fyrir orkusölu að kaupandinn sé "umhverfisvænn"? Er það ekki heldur mikil forsjárhyggja og afskiptasemi af lögmætum ákvörðunum í öðrum sveitarfélögum? Í þessu máli skírskota Vinstri grænir til þess að þeir séu umhverfisverndarflokkur. Andstaðan við orkusölu til álvers sé á þeim grunni byggð. Hún sé reist á hugsjónum og varðstöðu um málefnagrundvöll flokksins. En þá er eðlilegt að krafist sé samkvæmni í málflutningi og vinnubrögðum. Vinstri grænir koma því miður ekki vel út úr slíku prófi. Ekki yfirgáfu þeir kjötkatla Ráðhússins vegna Kárahnjúkavirkjunar. Og nú þegar R-listinn er að undirbúa stórfelld umhverfisspjöll í nágrenni Öskjuhlíðar og Nauthólsvíkur blæs fulltrúi þeirra, sem er formaður umhverfisráðs Reykjavíkur, á alla gagnrýni, hafnar því að fyrirhugaðar framkvæmdir vegna Háskólans í Reykjavík fari í umhverfismat og smíðar sér furðulegar röksemdir til að hnekkja því að háskólalóðin skaði eitt vinsælasta útivistarsvæði borgarbúa. Flokkur sem er ekki sjálfum sér samkvæmur er ekki trúverðugur. Ástæðan fyrir því að Alfreð Þorsteinsson kímir þegar fulltrúar Vinstri grænna eru með ólund er ekki bara sú að hann getur reitt sig á stuðning Sjálfstæðisflokksins á úrslitastundu heldur þykist hann líklega vita að á endanum eru umhverfisverndarmál ekki nógu stór og þýðingarmikil til að Vinstri grænir láti meirihlutasamstarfið í borgarstjórn lönd og leið fái þeir sínu ekki framgengt. Alfreð þekkir sína samstarfsmenn. Þess vegna hefur hann fyrirskipað að undirbúningur orkusölunnar skuli settur í fullan gang. Sjálfsagt er að ræða á opinberum vettvangi um álver og stóriðju og eðlilegt að um slík efni séu skiptar skoðanir. En þegar til lengri tíma er litið er hætt við að menn muni fremur minnast Vinstri grænna vegna umhverfisspellvirkjanna í Nauthólsvíkinni, gangi þau fram, heldur en deilnanna um orkusölu til álvers í Helguvík. Í stað friðsæls útivistarsvæðis og sérstæðrar náttúru og fuglalífs munum við sjá steinsteypublokkir, malbikaðar flatir og þúsundir ökutækja spúandi olíu og bensíni. Þá verður sagt: Þetta var nú árangurinn af stjórnartíð Vinstri grænna í Reykjavík.