Sport

Sigurður og Helena best í körfunni

Sigurður Þorvaldsson úr Snæfelli og Helena Sverrisdóttir úr Haukum voru valin leikmenn ársins á Lokahófi KKÍ sem fór fram með glæsibrag í Stapanum í Njarðvík í gærkvöldi. Þetta er í fyrsta sinn sem þau bæði hljóta þessi verðlaun en Helena, sem er nýorðin 17 ára, er yngsti leikmaðurinn frá upphafi til þess að vera valin besti leikmaður 1. deildar kvenna. Bestu ungu leikmenn deildanna voru valin Brynjar Þór Björnsson úr KR og Bryndís Guðmundsdóttir úr Keflavík en þau eru bæði á 17. ári. Benedikt Guðmundsson, þjálfari karlaliðs Fjölnis, og Ágúst Björgvinsson, þjálfari kvennaliðs Hauka, voru valdir þjálfarar ársins og Sigmundur Már Herbertsson þótti besti dómarinn. Þau Joshua Helm hjá KFÍ og Reshea Bristol í Keflavík voru valin bestu erlendu leikmenn deildanna, bestu varnarmenn tímabilsins voru valin þau Friðrik Stefánsson úr Njarðvík og Pálína Gunnlaugsdóttir úr Haukum og þau prúðustu þóttu Sólveig Gunnlaugsdóttir úr Grindavík og Lárus Jónsson úr KR. Snæfell átti tvo leikmenn í karlaliði ársins en ÍS og Keflavík áttu hvort um sig tvo leikmenn í kvennaliði ársins. Lið ársins í Úrvalsdeild karla var skipað eftirtöldum leikmönnum: Hlynur Bæringsson Snæfelli, Sigurður Þorvaldsson Snæfelli, Friðrik Stefánsson Njarðvík, Sævar Haraldsson Haukum og Magnús Þór Gunnarsson Keflavík. Í fyrstu deild kvenna var úrvalsliðið skipað eftirtöldum leikmönnum: Alda Leif Jónsdóttir ÍS, Signý Hermannsdóttir ÍS, Helena Sverrisdóttir Haukum, Bryndís Guðmundsdóttir og Birna Valgarðsdóttir úr Keflavík.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×