Viðskipti innlent

80% hagnaðaraukning á árinu

Hagnaður helstu félaganna í Kauphöllinni á fyrstu þremur mánuðum ársins eykst um tæp 80 prósent milli ára ef afkomuspá greiningardeildar Íslandsbanka gengur eftir. Munar þar mestu um 11,3 milljarða króna hagnað KB banka en hagnaður KB banka á sama tíma í fyrra var 2,65 milljarðar. Ekki er gert ráð fyrir fyrirtækin haldi áfram að skila jafn miklum hagnaði á árinu í heild og fyrstu þrjá mánuði þess. Sex félög græða meira en milljarð á fyrstu þremur mánuðum ársins og eru það sömu fyrirtæki og græddu meira en milljarð á fyrstu þremur mánuðum síðasta árs. Fimm þessara félaga eru fjármálafyrirtæki en sjötta fyrirtækið er Actavis. 19 fyrirtækjunum er spáð tæplega 31 milljarða króna hagnaði á fyrstu þremur mánuðum ársins en í fyrra var hagnaður þessara fyrirtækja rúmir 17 milljarðar. Aðeins einu félagi er spáð tapi. FL Group er spáð 11 milljóna króna tapi en fyrstu mánuðir ársins eru alltaf þeir erfiðustu í rekstri félagsins. Greiningardeild íslandsbanka spáir því að hagnaður félaganna 19 verði 18% hærri á þessu ári en í fyrra. Á árinu 2004 var heildarhagnaður félaganna 64 milljarðar en á þessu ári er gert ráð fyrir að hann verði 75 milljarðar og líkt og áður vegur hagnaður fjármálafyrirtækja þyngst.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×