Innlent

60 milljóna skaðabótakrafa

Hæstiréttur fyrirskipaði í gær Héraðsdómi Vesturlands að taka til meðferðar sextíu milljóna króna skaðabótakröfu Sigurjóns Sighvatssonar á hendur Hótel Búðum og fleirum. Sigurjón hafði leyst til sín skuldabréf sem tengdust hótelrekstrinum að Búðum. Félag sem að rekstrinum stóð varð gjaldþrota en framseldi lóðasamning að Búðum til nýrra félaga sem voru að hluta í eigu sömu aðila. Skiptastjóri þrotabúsins heimilaði málshöfðun vegna þessa. Sigurjón mat verðmæti lóðarinnar á 60 milljónir króna. Héraðsdómur Vesturlands vísaði málinu frá í nóvember síðastliðnum þar sem ekki hafi legið fyrir matsgerð á verðmæti lóðarinnar. Sigurjón áfrýjaði málinu til Hæstaréttar sem dæmdi í gær að Héraðsdómur Vesturlands skyldi taka málið til efnislegrar meðferðar. Hæstiréttur segir í dómi sínum að fallast megi á að stefnandi, það er Sigurjón, hefði mátt gera gleggri grein fyrir tjóni sínu. Hins vegar sé grundvöllur málatilbúnaðar hans ljós í aðalatriðum og í stefnu sinni rökstyðji hann fjárhæð bótakröfu sinnar sérstaklega. Ekki sé því ástæða til að krefjast þess að kalla hefði þurft til dómkvadda matsmenn. Niðurstaða Hæstaréttar var því sú að skipa Héraðsdómi Vesturlands að taka málið til efnismeðferðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×