Erlent

Þekktasta fórnarlambið á batavegi

Þekktasta fórnarlamb stríðsins í Írak er á batavegi. Ali Abbas, drengurinn sem missti hendurnar þegar sprengja lenti á heimili hans í Bagdad, vill snúa aftur heim til að starfa með öðrum sem misst hafa útlimi. Ali Abbas er einn þeirra sem sjónvarpsáhorfendum um víða veröld muna eftir frá því í stríðinu í Írak. Í sprengjuregninu í Bagdad fórst öll fjölskylda hans og sjálfur stórslasaðist hann: brenndist illa og missti handleggina. Ali er vissulega ekki eina barnið sem stríðið lék grátt en hann er heppnari en flestir því hann hefur notið meðferðar færustu lækna heims undanfarið ár. Hátækni gervihendur gera honum kleift að grípa og sleppa, og ef vel gengur segja sérfræðingar hugsanlegt að hann geti lifað því sem næst eðlilegu lífi. Ali er nú í Bretlandi þar sem hann hefur verið um hríð, gengur í skóla og lærir ensku. Hann segist hins vegar vilja snúa til Íraks sem fyrst þegar meðferð og menntun er lokið á Bretlandi því hann vill starfa með og í þágu annarra Íraka sem missta hafa útlimi. Góðgerðarsamtök á Bretlandi hafa safnað fé í styrktarsjóð sem kenndur er við Ali en í hann hafa safnast ríflega þrjátíu milljónir króna. Ein fjáröflunarleiðin er að selja kort með myndum sem Ali málaði með fótunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×