Innlent

Hallgrímur fer frá Kabúl

Davíðs Oddsson sagði í gær að Hallgrímur Sigurðsson væri að hætta sem yfirmaður friðargæslunnar á alþjóðaflugvellinum í Kabúl. Þetta kom fram í utandagskrárumræðu um árásir á íslenska starfsmenn utanríkisþjónustunnar í Kabúl, sem fram fór að ósk Ögmundar Jónassonar. Davíð sagði að það hefði verið farið ítarlega yfir atburðina, aðdraganda og aðstæður. Eftir það hefði verið ákveðið að flýta yfirmannaskiptum sem fram eiga að fara. Þann 10. nóvember mun nýr yfirmaður fara til Kabúl til að endurskoða starfsemina á flugvellinum og að henni lokinni mun hann taka við starfi Hallgríms. Ögmundur sagði í ræðu sinni að íhugandi væri hvort það að senda friðargæsluliða til starfa í Kabúl bryti gegn almennum hegningalögum, en samkvæmt þeim getur hver sá sem ræður menn til herþjónustu sætt fangelsisvist í allt að tvö ár. Ljóst væri að friðargæsluliðarnir hefðu fengið herþjálfun, þeir bæru vopn og titla og væru því hermenn. Þessu andmælti Davíð, sem sagði þá vinna borgarlega störf og þrátt fyrir að þeir hafi fengið örskamma þjálfun í beitingu vopna væru þeir ekki hermenn. Hann viðurkenndi þó að íslenskir friðargæsluliðar hafi réttarstöðu hermanna innan NATÓ.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×